F

Breytingar í perumálum

skrifað 21. ágú 2018

Í næsta mánuði, september 2018, munum við sjá næsta áfanga hins svokallaða „Peru-banns“ þ.e ljósgjafa sem bannaðir eru á evrópskum markaði.

Frá hausti 2009 hafa perur sem eru óhagkvæmar orkulega séð, smám saman verið að hverfa af markaðnum í samræmi við tilskipanir Evrópusambandsins.

Fleiri breytingar eru væntanlegar 1. september 2018 þegar næsta stig banns á halogenperum tekur gildi. Það bann nær aðallega yfir vinsælu klassísku halógen ljósperurnar, sem yfirleitt eru búnar til úr gleri, gefa frá sér ljós allan hringinn, eru með E27 eða E14 skrúfgangi og án innbyggðs spennis. Bannið mun þó einnig ná yfir sumar tegundir halógenpera með G4 eða GY6,35 fatningum. Nokkur töf verður þó á því að þessar perur hverfi alveg af markaði því heimilt er að selja birgðir sem til eru hjá heildsölum/smásölum. Neytendur ættu því að hafa nægan tíma til að uppfæra sína lýsingu í viðeigandi LED lýsingu. Nokkurt áhyggjuefni er þó að mikils ruglings virðist gæta hjá hinum almenna notanda varðandi hvaða kostir séu í boði og hvað henti þeim best, enda mikið og flókið úrval LED pera á markaðnum. Alþjóðlega neytendakönnun sem framkvæmd var af einum fremsta peruframleiðanda í heimi, LEDVANCE, leiddi í ljós að neytendur þekkja almennt ekki til þessa banns eða hvað það mun þýða fyrir þá. T.d. voru yfir 64% neytenda í Bretlandi ekki meðvitaðir um að vinsælar halógenperur verða ekki settar á markað eða framleiddar neins staðar í ESB frá september 2018.